Ég horfði á frábæra heimildarmynd um daginn. Myndir fjallar um sænska konu sem greindist með HIV á níunda áratugnum eftir ástarævintýri í Frakklandi. Lillemor (það heitir konan) var þá 19 ára og fékk greiningu rétt fyrir tvítugs afmælið sitt. Læknarnir sögðu henni að hún ætti eitt ár eftir. Fyrir tilstilli mömmu sinnar ákvað hún að halda áfram að lifa þrátt fyrir dauðadóm læknanna og hélt til náms á Skáni.
Næstum áratug seinna fékk Lillemor vírushamlandi lyf við HIV og stuttu seinna kom í ljós að vírusinn mældist ekki lengur í blóði hennar. Í öll þessi ár hafði hún ekki talað um veikindi sín við neinn og í raun lifað í algjörri afneitun, ekki verið í nánu sambandi við fólk og lifað í hálfgerði einangrun. En eftir að hún fékk að vita að hún væri í raun smitfrí ákvað hún að byrja að lifa lífinu eins og "venjuleg" manneskja. Árið 1999 gifti hún sig og átti svo tvö börn á næstu árum, án þessa að segja frá veikindum sínum. Hún hélt bara áfram að taka lyfin og talaði aldrei um þetta. Á þessum tíma voru foreldrar hennar, sem hún talaði næstum aldrei við, og læknirinn hennar, eina fólkið sem vissi af sjúkdóm hennar.
Sumarið 2004 verður Lillemor alvarlega veik, fær sýkingu í eggjastokkana og þá komast "venjulegu" læknarnir að því að hún er HIV smituð. Þeir verða auðvitað stein hissa að hún sé búin að fæða tvær dætur án þess að láta nokkurn mann vita af ástandi sínu (n.b. það var á sama sjúkrahúsi og hún fékk vírushamlandi lyfin og kom í HIV skoðanir). Þarna áttar Lillemor sig á alvarleika málsins og segir manninum sínum frá þessu. Í nokkra mánuði stóð hann þétt við bakið á henni en ákveður svo í október sama ár að kæra hana til lögreglunnar fyrir tilraun til grófrar líkamsárásar. Í myndinni er svo fylgst með því hvernig Lillemor undirbýr sig fyrir dvöl sína í fangelsinu, en hún fékk 2,5 ár fyrir að þegja yfir sjúkdómnum.
Þessi mynd er alls ekkert tilfinningaklám, hún er bara raunsæ og góð. Hún sýnir vel hvers vegna Lillemor valdi að þegja og í raun hvað hún hélt að sannleikurinn myndi hafa í för með sér (hún mætti auðvitað fáránlegum fordómum á níunda áratugnum). Eftir að hafa horft á þessa mynd þá langaði mig að grýta eggjum í manninn hennar. Þvílíkur hálfviti! En það er auðvitað bara það sem mér finnst (hann tók sko börnin af henni líka. Í dag fær hún að hitta þau í 72 tíma á viku. Það má geta þess að hún smitaði hvorki manninn né börnin). Mig langar líka að spyrja dómarann sem dæmdi eiginmanninum í hag hvað sé í gangi í hausnum á honum og hverslags eiginlega fordóma hann sé að burðast með.
En það sem hugsaði mest um eftir að myndin var búin var tvennt. Í fyrsta lagi eru í Svíþjóð (að mig minnir) 5000 manns með HIV og bara örfáir tala opinberlega um sjúkdóm sinn. Hvar á að draga línuna hér, fyrst að hún fékk fangelsisdóm fyrir sína þögn verður þá ekki að skikka all til að hafa þetta í skráð í skilríkin sín? Ég meina ég gæti reynt að aðstoða slasaða manneskju með HIV... er það þá tilraun til líkams árásar, það að segja mér ekki að manneskjan er með HIV? Hitt sem sló mig var að í fangelsinu var hún beðin um að halda sjúkdómi sínum leyndum fyrir hinum konunum, það væri ekki vel séð að umgangast fólk með HIV. Einmitt... skrítið að hún sagði aldrei neitt.
En ég mæli s.s. með þessari mynd. Hún er á sænsku en fyrir þá sem skilja smá ætti þetta ekki að vera flókið. Myndin er sýnd ókeypis á svtplay og verður þar til sýnis þar til 28. des.
Recent Comments