Við komum ti Udaipur - vatnaborgarinnar- þann 21. febrúar og nutum lífsins þar í þrjá daga. Núna erum við stödd í Jodhpur - bláu borginni.
Það má segja að Udaipur sé svolítið annað Indland en við vorum búin að kynnast fram að þessu. Þar er miklu minni mengun, minni asi, minni umferð, minni hiti, minna fólk. Nokkuð næs eftir geðveikina í Mumbai og Aurangabad. Don't get me wrong, umferðin hérna er samt svakaleg stundum og vegna þess að það eru engar gangstéttir þarf maður að vera mjög varkár í gamla bænum þar sem að mis hressir bílstjórar flauta STANSLAUST á mann... jafnvel þó svo að maður sé augljóslega ekki á leið yfir götuna eða fyrir þá.
Hér eru líka kýr úti um all - algjörlega óhræddar við vespur, bíla eða fólk. Þær eru þokkalega með það á hreinu að þær eru heilagar. Þetta gerir það að verkum að það er slatti af kúamykju hérna og slatti af flugum sem elska kúamykju. En einhverra hluta vegna er þetta bara krúttlegt og blandast við lyktina af tandoori, reykelsi og kryddum og úr verður einkennislykt Udaipur. En þó svo að það megi ekki drepa kýr og að keyra á þær boði mikla ógæfu þá er fólk heldur ekkert voðalega gott við þessar elskur. Því komumst við að þegar við heimsóttum dýra athvarf í grennd við borgina.
Þessi borg er ótrúlega falleg. Lang flestar byggingarnar eru í svokölluðum nýlendustíl (eða það segja guidebækurnar) og eru svona smækkuð útgáfa af soldána höll. Borgin er kölluð The Lake City og það ekki fyrir ekki neitt. Það eru vötn í allar áttir. Einhver ríkur kóngur sökkti heilu þorpi fyrir nokkrum öldum til þess að fá stöðuvatn í borgina sína. Stíflan virðist enn halda.
James Bond myndin Octopussy var tekin upp hérna og mér finnst það ekki skrítið - umhverfið hérna er svo nákvæmlega eins og ég hafði séð nýlenduna Indland fyrir mér. Ekki eins og sé nútíma Indland fyrir mér eða gamladaga yoga Indland en algjörlega eins og ég sá steriotýpu Indland fyrir mér.
Í Udaipur tókum við því rólega og kynntumst aðeins borginni. Við lærðum líka að elda indverskan mat og fórum og klöppuðum lömuðum eða fótalausum hundum í nokkra klukkutíma. Heimsóknin í dýraathvarfið var algjörlega ógleymanleg en starfsfólkið þar sagði okkur að kýrnar gerðu ekki greinarmun á mati og plasti og væru þessvegna fullar af plasti. Flestar kýrnar sem enda í athvarfinu eru nefninlega götukýr og lifa af ruslinu sem þær finna alveg eins og hundarnir sem við hittum þarna.
Ástæðan fyrir því að hundarnir sem við sýndum smá ást voru lamaðir eða fótalausir var sú að það hafði verið keyrt á þá. Og eftir að hafa setið í tuk-tuk hér í Indlandi kemur mér þetta ekki á óvart - þeir keyra eins og brjálæðingar! Ástæðan fyrir því að athvarfið hvetur ferðalanga til að koma er sú að dýrin þarfnast athygli. Dýr sem eru að jafna sig eftir erfiða aðgerð eða slys þurfa smá TLC og það var nákvæmlega það sem að við gerðum. Við klöppuðum þeim og lékum við þá, klóruðum þeim og töluðum svolítið við þá. Þetta var algjörlega ógleymanlegt!
-------------------
En núna erum við í Jodphur þar sem við höfum eytt síðustu tveimur dögum. Þessi borg er eitt stórt völundarhús. Annaðhvert hús er blátt (blái liturinn er til þess að kæla og halda skordýrum frá) og engin gata er bein. Þetta skapar svo sannarlega sinn sjarma og virkið sem gnæfir yfir borgina gerir þetta ekki verra.
Ég veit ekki hversu oft ég er búin að velta því fyrir mér hvað fólk var og er klikkað. Öll þessi musteri sem við erum búin að heimsækja - hand höggvin með þúsundbilljón súlum og skraut dóti. Ég skil bara ekki alveg hvernig fólk nennti þessu. Ég er auðvitað mjög fengin að þetta fólk gerði það sem það gerði - ég get nokkrum öldum seinna verið mjög menningalegur túristi og notið herlegheitanna.
Þetta virki hérna í Jodhphur er engin undantekning, það er RISA stórt! En auðvitað þjónar virki svolítið meiri beinum tilgangi en hof það sem að það var byggt til þess að vernda borgina en ekki bara þóknast einhverjum guði.
Þegar við komum inn í virkið í morgun þá fengum við okkur þennan líka súper fína audiotúr (við tókum sénsinn því bæði Lonely Planet og Rough Guide mældu sterklega með honum. Við komumst t.d. að því að kóngurinn sem er við (mjög takmörkuð) völd í dag tók við embætti 4 ára. Sem er auðvitað mjög eðlilegt og við hæfi. Við komumst líka að því að þegar konungur dó í "gamla daga" þurfti drottningin eða drottningarnar að ganga með líkbörunum í eldinn. Þær fóru bara í sitt fínasta púss og settust þarna og biðu eftir því að brenna. Huggulegt. Síðasta svona athöfnin fór fram um miðja 19. öld.
Næst á dagskrá er Jaisalmer þar sem við ætlum að fara í úlfalda safari og sofa undir stjörnubjörtum himninum.
Skrifað á þakinu á Yogi's Guesthouse í Jodhpur þann 27. febrúar 2011
Alltaf jafn gaman að lesa ferðablogginn þín. Hljómar ótrúlega vel. Skemmtið ykkur stórkostlega :-)
Posted by: Helga | 28 febrúar 2011 at 14:09
Meiri háttar að lesa ferðabloggin þín Margrét mín. Er með í anda finnst egilega að ég sé með. Jón Jökull finnst meiriháttar að lesa líka og biður að heilsa.
Kveðja frá öllum xxxxx M
Posted by: Björg | 01 mars 2011 at 10:19