Við komumst heilu og höldnu frá Mumbai til Aurangabad eftir ótrúlega auðvelda 11 tíma rútuferð. Aurangabad er frekar sorgleg borg. Það búa þar yfir ein milljón manns en samt leið manni alltaf eins og maður væri einhverju sveitaþorpi í niðurníslu. Ef ekki værir fyrir mengunina hefði ég giskað á að þetta væri svona 50 þúsund mann þorp, að minnsta kosti miðað við þær götur sem ég labbaði.
Göturnar hérna eru ómalbikaðar svo að viðvarandi rykmökkur er alltaf í loftinu. Fyrir utan rykið er allt í auto rickshaw svo að svartur bensín reykur liggur líka yfir borginni. En fólkið hérna (eins og í Mumbai) er yndislegt. Þau eru reyndar flest með hósta út af ástandinu á loftinu en þau er brosmild og skemmtileg engu að síður. Hótelið sem við gistum á var ekkert eðal pleis (drap 5 kakkalakka að mig minnir) en starfsfólkið var yndislegt og loftkælingin gerði okkur kleift að sofa vel.
Fyrsta daginn (s.s. daginn sem við komum) fórum við og skoðuðum Ellora hellana. Þeir eru úthöggnir í fjallið og alveg ótrúlega fallegir. Sérstaklega hellir númer 16 sem er ekki hellir heldur mörg hof með einum frekar látlausum inngangi (svona miðað við hvað var fyrir innan). Við komum þarna á laugardegi og það voru eiginlega engir aðrir vestrænir túristar, bara indverskir túristar í sínu fínasta pússi. Konurnar hérna eru svo ótrúlega flottar í sínum litríku saríum. Það er að segja hindúarnir - múslimakonurnar eru auðvitað alltaf í sínum svarta ljóta galla.
Um kvöldið - eftir að hafa borðað yndislega máltíð á veitinga stað sem að Rough Guide mældi með - sáum við stórt veislutjald þar sem hindí dans tónlistin dunaði. Við gengum inn og þá kom í ljós að þetta var brúðkaup. Sjálf athöfnin átti reyndar ekki að fara fram fyrr en næsta dag en ein kona og einn strákur tóku að sér að bjóða okkur. Vá mig hefði svo langað að fara en athöfnin byrjaði klukkan hálf tólf og við vorum á leið í Ajanta hellana daginn eftir.
Ajanta hellarnir voru æði. Þrátt fyrir töluvert magn af túristum og næstum óbærilegan hita náðum við svo sannarlega að njóta þessara eldgömlu hella sem fundust á 19. öld eftir að hafa horfið í frumskóg á 7. öld. Nokkuð magnað að vera týnd í 12 aldir.
Við fengum okkur svo göngutúr upp á útsýnispall á móti hellunum og sáum þá niður í gljúfur þar sem rétt sást móta fyrir smá polli. Í þessu gljúfri er s.s. nokkuð djúpt stöðuvatn nokkra mánuði á ári sem og foss. Merkilegt hvað árstíðirnar hérna eru gjör ólíkar.
--------
Núna erum við stödd á innanlandsflugvellinum í Mumbai að bíða eftir fluginu okkar til Udaipur - ég reikna með að sú borg eigi eftir að skor töluvert hærra en Aurangabad og eflaust líka Mumbai.
Skrifað á innanlandsflugvellinum í Mumbai - terminal 2A þann 21. febrúar 2011
Comments
You can follow this conversation by subscribing to the comment feed for this post.