Síðustu daga höfum við verið í Darjeeling - frekar litlum fjallabæ í Himalayafjöllum. Við komum hingað í þeirri vona að sjá frábært útsýni og upplifa smá öðruvísi Indland. Útsýnið var örugglega frábært, við sáum það bara ekki fyrir skýjum og þoku en þetta var svo sannarlega öðruvísi Indland. Það eina sem gerði okkur ókleift að gleyma því að við vorum í Indlandi var stanslaust bílflaut og geltandi hundar á nóttinni.
Í Darjeeling eru flestir af nepölskum ættum og búddhatrúar. Það eru búddhamusteri út um allt og ég sá ekki einn múslima (heyrðum samt bænaköll á mjög ókristilegum tímum!!). Fólkið talar ekki tungumál sem líkist Hindí heldur miklu frekar kínversku. Fyrir utan fólkið var líka umhverfið allt öðruvísi en allt annað sem við höfum séð í Indlandi, fjöll, tré og kuldi. Auk þess virtist sem að öllum væri mjög annt um að allt liti vel út í kringum húsið sitt - ég held ég hafi aldrei séð annað eins magn af pottaplöntum!
Við vorum aldrei beðin um að kaupa neitt eða skoða þessa eða hina búðina og okkur var bara boðinn taxi á stöðum merktum taxi stall. Ótrúlega góð tilbreyting. Svo voru allir hundarnir loðnir og mega kjút. Allt þetta gerði það að verkum að ég var alveg að elska þessa næstum þrjá daga í Darjeeling. Yndislegt te og endalaust af sætum börnum í Harry Potter skólabúning (vantaði bara kústinn) var heldur ekki að skemma upplifunina. Ég sleppti því þó ekki að versla - næsta árið verður drukkið eðal Darjeeling te á mínu heimili. Viltu grænt eða svart?
Við heimsóttum dýragarðinn sem er bæði með Himalaya dýr og plöntur. Við sáum rauða pöndu, hlébarða, fína fugla, sofandi björn, tígresdýra kisur, úlfa og ég veit ekki hvað. Best af öllu var samt snjóhlébarðinn sem við sáum. Ótrúlega fallegt dýr með þennan líka fína (og því miður allt of vinsæla) feld og ljósblá augu. Þessi dýragarður er sá eini í heiminum sem hefur tekist að rækta snjóhlébarða - bravó fyrir þeim.
Við skoðuðum líka Himalaya Mountain Institute (HMI) þar sem er lítið safn um Everest og fólkið sem hefur komist þangað. Sérstakur fókus er á fyrstu ferðinni en annar garpurinn, Tenzing Norgay, var einmitt frá Darjeeling. Ég hef alltaf haldið því fram að fólk sem virkilega langar að klýfa svona há fjöll bara getur ekki verið með öllum mjalla. Á safninu komst ég að því að ég hef alltaf haft rétt fyrir mér. Gallarnir sem fólkið var í fyrir nokkrum áratugum myndu ekki halda mér á lífi yfir nótt á Íslandi um vetur hvað þá þarna on top of the world!
Við fórum svo líka í göngu. Hún átti að vera létt og fín með viðkomu hinumegin við Nepölsku landamærin. Útsýnið átti að vera geggjað og líkurnar á að sjá fullt af dýrum úr dýragarðinum í sínu náttúrulega umhverfi nokkuð góðar. En við vorum ekki beint heppin með veður. Eftir svona hálftíma göngu í blindaþoku byrjaði að rigna eins og hellt væri úr fötu. Ég hef aldrei verið úti í svona mikilli rigningu nema þegar ég var að bíða eftir að komast inn í Herjólf í fyrra. Eftir einn og hálfan tíma í viðbót, gegnblauta skó og buxur sem hægt var að vinda ákváðum við að snúa við. Áður en við gerðum það fengum við okkur samt te hjá nepölskum hjónum sem selja te og annað fínt heima hjá sér, í bambuskofanum sínum með moldargólfi. Okkur var boðið sæti á litlum kollum við eldinn inni í stofu hjá þeim. Konan færði okkur svo ódýrasta tebolla ferðarinnar en hann var ó svo ljúffengur í kuldanum. Við hlýjuðum okkur aðeins við eldinn og hálf hlupum til baka. Þegar við vorum komin upp á hótel vorum við svo marga tíma að koma hita í kroppinn þrátt fyrir sjóðheita sturtu, kakódrykkju og teppi. Ég fann fyrir tánum á mér ca 5 tímum eftir að við komum heim (n.b. ég var í ca 2900 metra hæð og fór svo beint heim í hlýjuna. Fólk sem er í margar vikur í 8000 metra hæð er ekki í lagi.).
Í morgun reyndum við svo einu sinni enn við útsýnið og fórum upp að Tiger Hill sem er svona útsýnistindur í Darjeeling og vonuðumst til að sjá eitthvað annað en bara þoku þegar sólin kæmi upp. En þokan lét sér ekki segjast og við sáum ekkert nema króknandi túrista. Við fengum samt ágætis útsýni (ekki upp í næstu fjöll en allavega yfir bæinn og niður í dalina) þegar við vorum að keyra örmjóu og hlykkjóttu vegina á leið á flugvöllinn.
En þrátt fyrir að við höfum ekki náð að sjá hið magnaða útsýni Darjeeling þá var þetta einn af hápunktum ferðarinnar. Ég er 100% á að ég muni koma þarna aftur einn daginn. Ég held að hótelið okkar eigi stóran part í því - það var svo mega krúttlegt. Hótelið er rekið af tíbetskum hjónum og var mælt með því bæði í Lonely Planet og Rough Guide. Þetta var svona bjálka kofi á þremur hæðum efst í halla (stiginn upp var svaðalegur) og var herbergið okkar efst uppi og með svaka fínu þoku útsýni. Fólkið sem vinnur á hótelinu var mega krúttlegt og það var meira að segja heimilishundur sem vildi láta klappa sér. Á kvöldin fékk maður svo sjóðheitan hitapoka til að hlýja sér og á morgnana er boðið upp á te upp í rúm ef maður vill, svona til að safna kjarki til að koma sér undan sænginni. Já til Darjeeling kem ég örugglega aftur!
Næst á dagsrá er það Calcutta í tæpan sólarhring áður en leiðir skiljast hjá okkur Einari tímabundið. Indverska ferðasagan heldur áfram í næstu viku hjá mér.
Skrifað í háloftunum, á leið frá Darjeeling til Calcutta þann 29. mars klukkan 13:00.
Recent Comments