Í dag er dagur númer 38. Það eru bara rúmar tvær vikur eftir af þessari frábæru ferð.
Við erum núna stödd í Varanasi. Mig hefur lengi langað að koma hingað, þessi borg var mín uppáhalds borg í Indlandi úr fjarlægð. Mér hefur alltaf fundist það heillandi að fólk baði sig virkilega í ánni vegna þess að hún er heilög og að fólk komi hingað til að deyja því það fái fyrirgefningu syndanna ef það deyr hér.
Eftir þrjá daga í borginni er ég algjörleg á því að þetta er staður sem er ómissandi í hverri Indlandsheimsókn. Það er lang mesta umferðargeðveikin hérna og miðað við hversu margir búa hérna held ég að þetta sé án efa skítugasta borgin. En á sama tíma er hún líka elst og heilögust að mati hindúa.
Umferðin hérna er ótrúleg. Ég hélt að bíl/mótorhjóla flautið væri pirrandi í Udaipur, Jaipur eða Delhi en hér nær þetta nýjum hæðum. Ég er nokkuð viss um að meðal Indverji er með svona 50% heyrn en hér getur það max verið 25%. Þau flauta STANSLAUST. Og fáránlega hátt. Hér er þetta bara svona halló-ég-er-að-koma-ekki-vera-fyrir eða halló-ég-er-að-beygja-fyrir-þetta-horn-ef-einhver-er-hinumegin-hægðu-þá-á-þér nema í staðinn fyrir orðin kemur bíp-bíp-bíp-bípppp-bípppp. Ég viðurkenni alveg að þetta er ekki eitthvað sem ég á eftir að sakna við Indland. Þessi hávaði út á götu gerir s.s. það að verkum að Indverjar heyra ekki neitt og þar af leiðandi tala þeir rugl hátt, eru með símann sinn á loud og bara almennt kunna ekki að hafa ekki læti. Svo segja þeir líka ha endalaust og ég nokkuð viss um að það sé ekki vegna þess að þeir skilji ekki enskuna mína.
Við lentum í því um daginn í næturlest að nokkrir Indverjar komu inn í okkar vagn klukkan þrjú um nótt. Við hin sem vorum kominn inn í okkar "herbergi" vorum öll stein sofnuð en þeir bara kjöftuðu sín á milli eins og þeir væru staddir á dansgólfi á skemmtistað. Og svo hringdi síminn (auðvitað á loud) og þeir virkilega öskra í símann... eins og þeir þurfi að berjast fyrir þvi að hljóðið komist alla leið. Ég sagði þeim að shut up og þeir hlýddu sem betur fer.
Allavega... hér í Varanasi er líka skítugt. Ég held að það sé aðallega vegna þess að hér er svo mikið um þröngar götur í gömlu borginni að það er erfitt að halda þeim fínum. Borgin er auðvitað ævaforn (3200 ára) og pílagrímsferðir hingað eru fáránlega vinsælar. Reyndar er minni loftmengun hérna en á mörgum öðrum stöðum - ég held að það sé vegna þess að um þröngu göturnar komast engir bílar heldur bara hjól og mótorhjól.
Mér finnst líka hundarnir á götunum hér sérstaklega veiklulegir og bara illa haldnir af sníkjudýrum og vannæringu. Mín kenning er að Ganga sé ástæðan fyrir ástandi hundanna - þeir baða sig upp úr henni og drekka upp úr henni.
En það er ekki nóg með að hundarnir séu illa haldnir, það er mjög mikið af veiku og gömlu fólki hérna sem kemur til að deyja og hljóta náð fyrir Shiva. Það er auðvitað ekkert betra en að vera brenndur á báli og öskunni dreyft í heilagt fljót... eller?
En á sama tíma er þessi borg örugglega mest heillandi borg Indlands. Ég er búin að fara í tvær siglingar um ánna, bæði við sólarupprás og um kvöld. Byggingarnar við ánna eru flestar ótrúlega fallegar, það er fólk að biðja, baða sig eða stunda yoga (í gær var fólk í hláturyoga klukkan 6 um morgun, ég sprakk úr hlátri líka) í flestum Ghat (þrepin niður að vatninu - alls yfir 80) - það að sigla um ánna er ógleymanlegt, friðsælt og fallegt. Vatnið í ánni er reyndar viðbjóðslega skítugt (Einar stakk hendinni ofaní og var ælandi eins og múkki 16 tímum seinna) og það er svolítið rusl þarna en það er bara ekkert mál að líta fram hjá því.
Það er líka gaman að tala við fólkið hérna. Það er allt svo upptekið að karma og öllum sínum 3600 guðum. Það er frekar nett að fá fyrirlestur frá túr guida að maður eigi að lifa í mómentinu og vakna á hverjum morgni og trúa að því að þessi dagur verði snilldin ein.
Við erum líka búin að ganga fram hjá líkbrennslugathinu og þá sá ég í fyrsta skipti lík. Og það brann! Mjög furðulegt að sjá þetta up close og finna lyktina (ég veit að það er ógeð en lyktin er bara eins og grilllyktin á reykvísku sumarkvöldi). Merkilegt, skrýtið og ógleymanlegt.
Við erum líka búin að borða eina bestu máltíð ferðarinnar hér í Varanasi, á Gateway hótelinu. Mmmm non veg thali. Nafnið hljómar kannski ekki spennandi en þetta er svona stór silfurlitaður diskur (held að þessi í fyrradag hafi actually verið silfur) með nokkrum litlum réttum, nan og eftirrét. Algjört lostæti.
En í gær varð Einar veikur og er búin að liggja uppi á hótelherbergi síðan. Ég var orðin nokkuð viss um að maginn hans væri úr stáli en Ganga náði að sigra (ok ég er ekki svo viss um að þetta sé Ganga að kenna en það para pínu gaman að segja I told you so, ég varaði hann nefninlega við að þetta væri ekki gáfulegt). Ég var því solo túristi á bátsferðinni minni í kvöld. Komst að því að það er klárlega 100x skemmtilegra að vera í góðum félagsskap.
Næst á dagsrká er Darjeling sem er í 2100 metra hæð (svipað og efsti tindurinn á skíðasvæðinu í Mégeve þar sem ég renndi mér árið 2008 - skrítið að fólk búi þar). Hitastigið þar er aðeins annað en hérna, 17° lægra á daginn og fer undir frostmark á næturnar. Það verður huggulegt að skipta um umhverfi - komast í tært fjallaloftið og þurfa ekki að hafa loftkælinguna á fullu á kvöldin. En fyrst er það morgun yoga í fyrramálið og smá tan session á sundlaugarbakkanum á hótelinu.
Skrifað á Surya hótelinu í Varanasi klukkan 22:38.
DÁSAMLEGT! ÖFUND!
SKEMMTIÐ YKKUR!
VONA AÐ EINAR SÉ AÐ NÁ SÉR!
Posted by: Eva María | 25 mars 2011 at 10:03