Síðan ég bloggaði síðast er ég búin að vera bæði í Dubai og Amsterdam. Ástæðan fyrir þessum sveig var helgarferð til Amsterdam ásamt góðum hóp kvenna sem var skipulagður fyrir mörgun mánuðum. Á leið þangað kom ég við í Dubai.
Í Dubai komst ég að nokkrum hlutum:
* Emirates er SNILLDAR flugfélag. Ég gat ekkert sofið á leiðinni til Amsterdam (gisti á hóteli eina nótt í Dubai svo ég náði að vinna upp smá svefn þar) sökum spennings yfir frábærum bíómyndum og eðal mat. Ég er ekki að grínast - ég var eins og krakki í sínu fyrsta flugi.
* Dubai er örugglega hreinasta borg í heimi. Það er auðvitað einhver loftmengun en maður getur án efa borðað af gólfinu á flugvellinum. Skemmtileg tilbreyting frá Indlandi.
* Það kom mér á óvart hvað það er mikið af útivinnandi konum. Ég fékk t.d. konu leibubílstjóra frá flugvellinum og það voru konur að afgreiða í öllum búðum.
* Mall of Dubai er svo stórt að það er ekki séns að útskýra það fyrir fólki sem ekki hefur verið þar. Fyrst fylltist ég gleði yfir vesturlönskum munaði (góður hamborgari með nautakjöti, gott kaffi, alvöru apótek sem selur t.d. rakvélablöð og bómull) en eftir fjóra tíma og nokkra poka ver ég komin heilan hring í menningarsjokkinu og var farin að sakna Indlands og komin með samviskubit yfir tveimur nýjum camper skóm... afhverju gaf ég ekki peninginn í hjálparstarf í staðinn??
*Aðeins til að útskýra stærðin á mollinu ætla ég að nefna dæmi. Ég var þarna inni í fjóra tíma - borðaði, fór í dýragarð, verslaði.. svona dót sem að maður gerir í molli í Dubai. Allan tímann var ég að reyna að finna Starbucks sem er með 3 staði inni í mollinu. Ég fann það ekki fyrr en ég var búin að gefast upp og var á leiðinni út. Þrír risastórir Starbucks staðir hurfu í þessu risavaxna dæmi.
* Í mollinu fór ég að sjálfsögðu í dýragarðinn, skoðaði stærsta fiskabúr í heimi (sem er svo stórt að ég taldi a.m.k. 20 hákarla), stærsta innanhússfoss í heimi, stærsta gosbrunn í heimi... you name it! Allt er stærst og merkilegast í Dubai (allavega samkvæmt Guinness).
* Burj Dubai er hæðsti turn í heimi. Ég var ekki að höndla að horfa upp turninn svo ég hætti strax við að fara upp eins og upprunalega planið var. Ég horfði bara á gosbrunninn fyrir framan (sem fer einhverja tugi metra upp í loftið) og það var alveg nóg fyrir mig.
* Mér leið pínu eins og heimilislausri konu í allri dýrðinni. Eða sko... ég átti ekki Lamborghini og var ekki með Louis Vuitton tösku svo ég var auðvitað eins og meðal stéttleysingi í Mumbai á Dubai standard.
Eftir 15 klukkutíma í þessu skrítna landi lagði ég af stað til Amsterdam. Helgin þar var alveg frábær. Það var yndislegt að drekka vatn úr krananum, falla inn í hópinn og borða salat í öll mál. Ég hafði líka engar áhyggjur af því að maturinn minn væri ekki fulleldaður og kveið því ekki að fara á almenningsklósett. Þetta var mín fyrsta heimsókn til Amsterdam og mér fannst borgin æðisleg. Sjarmerandi, falleg og kósý. Gæti alveg hugsað mér að búa þarna einhverntíma. Á þessum fjórum dögum fór ég á Anna Frank safnið, í bátsferð um síkin, sá Mary Poppins á Hollensku, skoðaði Kaukenhof - yndislegan túlípanagarð og borðaði frábæran mat.
Á sunnudagskvöldinu tók svo "heimferð" til Kolkata við. Aftur gat ég ekki stillt mig um bíómyndaáhorf á leiðinni til Dubai en i seinna fluginu tókst mér sem betur fer að sofa smá (ég horfði s.s. á eftirfarandi bíómyndir í boði Emirates: The Next Three Days, Never Let Me Go, The Fighter, All Good Things, Fireflies in the Garden. Ég held ég sé jafnvel að gleyma einni mynd! En ég mæli með þeim öllum - eðal myndir allt saman.
Ég lenti svo á mánudagsmorgni í Kolkata. Ég get ekki sagt að það hafi glatt mig mikið. Að "skreppa til Evrópu" er ekki góð hugmynd undir lok Indlandsferðar. Mér fannst allt skítugt og ógeðslegt þegar ég kom. Bílstjórarnir á flugvellinum reyndu að svindla á mér, vegabréfaeftirlitsgaurinn kom með túrista indverja spurningar (í 1000sta skiptið) og það var ógeðslega heitt. Fyrir utan þetta var ég án Einars og það var ekki að bæta stemmninguna. Ég ákvað að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég væri pínu þreytt á Indlandi en að á sama tíma væri svefnrugl, jetlag og tímamismunur örugglega að bæta gráu ofan á svart. Ég ákvað því að leggja mig bara og bíða eftir að Einar kæmi "heim" frá Bangladesh. Um leið og hann bankaði á hurðina breyttist allt og ég varð örugglega svona 30% betri, eftir nokkra tíma með Einari og 8 tíma nætursvefn var ég svo allt önnur í gærmorgun. Til í að túristast um Kolkata og njóta þessara tveggja síðustu daga í borg hér í Indlandi.
Í gær og í dag erum við svo búin að skoða Victoria Memorial, Howrah brúnna, blómamarkaðinn, kaupa strandkjól á mig og sundbuxur á Einar, rölta um helstu göturnar, skoða India Museum og borða vestrænan skyndibita í síðasta skipti og versla bækur um græn málefni í nýju uppáhalds bókabúðinni minni. Þessi borg er skítug, rök, heit, mismunum ríkra og fátækra er mjög mikil og hér er umferðin á öðru kaliberi en annars staðar á Indlandi. Við fengum líka rottu undir hurðina og inn á herbergið okkar í morgun. Hún var samt óttalega lítil (enda þarf hún að vera það til að komast undir hurðina) en ég öskraði samt úr mér lungun. Greyið rottan hoppaði 3x hæð sína af hræðslu við öskrið í mér. Eftir að Einar hetja sýndi karlmennskutaktana hljóp hún út sömu leið og hún kom. En þrátt fyrir þetta er þessi borg falleg og sjarmerandi. Það er allt í gróðri og mannlífið er meira en í flestum öðrum borgun sem við höfum komið til hér á Indlandi. Borgarstæðið sjálft er án efa það fallegasta af stóru borgum Indlands - því fylgir reyndar þessi raki sem gerir húsnæðiseigendum erfitt að halda fallegum byggingum heilum. En ég er hrifin af þessari borg og ef ekki væri fyrir gráðurnar 36 og 55% rakann væri hún top 3 á Indlandi hjá mér.
Á morgun eru það Andamaneyjar þar sem planið er að sóla sig, kafa með fíl, borða fisk og njóta síðustu vikunnar á indverskri grundu. Ótrúlegt að það sé bara rétt rúm vika eftir af þessari dásamlegu ferð.
Oh þvílík dásemd! Vona að ég eigi einhvern tíma eftir að geta upplifað svona hluti! Njótið nú síðustu daganna elskurnar mínar og ég hlakka svo til að knúsa ykkur um páskana ;)
Posted by: Eva María | 07 apríl 2011 at 13:30
Þetta er nú meira ævintýrið. Hlakka til að sjá myndir. Get annars ekki beðið eftir því að fá þig aftur til Svíþjóðar þótt að ég sé ekki þar en það verður svo gott að geta hringt vennever. Svooooo eru bara tvær vikur í að ST sameinast :)
Posted by: Anna Dröfn | 12 apríl 2011 at 13:56