Á laugardagskvöldið fyrir viku (þegar ég ætlaði að vera að drekka Bailey's og fara í partý) horfðum við Einar á Food Inc í gegnum iTunes.
Vá ég var ekki að höndla þetta. Ég fékk sko í alvörunni tár í augun við að horfa á þessa mynd. Hingað til hef ég alveg verið ágætlega dugleg að kynna mér matariðnaðinn. Ég hef lesið endalaust á netinu og svo nokkrar bækur líka. Fyrst byrjaði ég á því að horfa á Meet Your Meat, heimildamynd PETA um kjötiðnaðinn í USA í leikstjórn Alec Baldvin. Ég borðaði ekkert sem kom af dýri í einhverjar vikur. Síðan taldi ég mér trú um að ástandið væri ekki eins slæmt í DK (bjó þar þá) og fór aftur að borða ost, kjúkling og fisk. Þetta borðaði ég samt allt í hófi.
Þegar ég flutti aftur heim til Íslands þá slakaði ég aðeins á í þessu og fór að trúa því að ástandið kæmist ekki í líkingu við það í USA. Það er auðvitað rétt en samt sem áður var ég ótrúelga oft farin að borða bara meðlætið ef um rautt kjöt var að ræða og pantaði mér oftast fisk eða grænmetisrétti á veitingahúsum. Síðan eru liðin nokkur ár og er ég búin að lesa nokkrar bækur um þetta, mismunandi að gæðum en eiga það þó allar sameiginlegt að láta mig hugsa mig tvisvar um áður en ég keypti næst kjöt eða nokkurn annan mat. Það eru nokkrar bækur sem ég mæli sérstaklega með. Food Matters er frábær bók fyrir "byrjendur". Hún fjallar um hvaða áhrif matarræði okkar hefur á okkur sjálf og jörðina sem við byggjum (en fyrir þá sem ekki vita þá mengar matariðnaðurinn meira en t.d. bílar í Bandaríkjunum). Þessi bók er ekki of ýkt, þ.e.a.s er ekki algjörlega á móti kjötáti eða nokkuð svoleiðis. Hún er reyndar ekkert bókmenntalegt afrek en mjög gott lesefni engu að síður og með fullt af girnilegum uppskriftum. Næsta bók, Omnivore's dilemma, er alveg hreint frábær. Hún er svona millistig. Mikið meira af upplýsingum og það er kafað aðeins dýpra í þetta efni. Mér finnst hún hálfgerð skyldulesning fyrir alla þá sem að vilja axla ábyrgð á því sem þeir neyta og vera svolítið með puttan á púlsinum. Þriðja bókin sem ég mæli með, Not on the label, er allt öðruvísi en hinar tvær. Hún fjallar að stórum hluta um aðstæður verkafólks í matariðnaðinum í Bretlandi sem og hversu mikinn skít (bókstaflega) stóru framleiðundirnir setja í matinn okkar. Oj bara. Þessi bók er þó öllu erfiðari lestrar, pínu flókin og meira fræðileg en algjörlega frábær.
Það er alveg hreint ótrúlegt hvað mörg þessara framleiðslufyrirtækja hafa okkur algjörlega að fíflum! Ef maður dregur þetta saman þá eru flest þessi vandræði í matariðnaðinum til komin vegna þess að neytandinn í dag vill kaupa matinn of ódýrt og fá allar tegundir grænmetis á öllum tímum ársins. Það er svo framleiðendunum sjálfum að kenna að við, neytendurnir, viljum matinn svona ódýran. Framleiðendurnir vöndu okkur á þetta.
En svona til þess að segja hvað mér fannst um myndina þá er hún algjörlega frábær. Hún sýnir margar hliðar á þessu máli, bæði aðstæður verkafólks og bænda, aðbúnað dýrana og auðvitað hversu sjúkt innihald þess matar sem við neytum er orðið. Ég mæli með því að allir taki sér smá tíma í að skoða nánar hvað nákvæmlega er á disknum þínu, hvaðan kom það og hversu mikil áhrif hafði þessi matur á umhverfið og verkafólk. Food inc er ágætis byrjun.
Recent Comments