Við sitjum á flugvellinum í Zürich og bíðum eftir síðasta fluginu okkar heim til Stokkhólms sem fer eftir nokkra klukkutíma. Við erum núna búin að vera 25 og hálfan tíma á ferðinni, búin með fjögur flug og slatta af vondum mat.
Síðan við fórum frá Kolkata í lok síðustu viku erum við búin að vera á sannkallaðri paradísareyju - Havelock eyju, einni af Andaman eyjunum. Þetta eru ótrúlega afskektar eyjur (1000 km frá meginlandi Indlands) og ótrúlega lítill túrismi, sérstaklega í ljósi þess að þarna eru gordjöss strendur og frábært að kafa.
Við ákváðum eftir nokkrar vikur á Indlandi að fara til Andaman og breyttum upprunalega ferðaplaninu frá því að enda ferðina á Goa yfir í Andaman eyjar. Aðal ástæðan var sú að á Andaman er hægt að kafa við frábær skilyrði og svo heillaði líka að vera svona afskekkt en ekki í hringiðu túrismans á Indlandi.
Við mættum í steikjandi hitann og 80% rakann seinnipartinn og pöntuðum strax í tvær kafanir daginn eftir. Ég var smá stressuð (eins og alltaf fyrir fyrstu köfun) og var eiginlega bara hætt við þarna um morguninn. Fannst Kindle, strönd og chill bara hljóma sem gott plan fyrir næstu sex daga. En um leið og við vorum komin út á bát og í gallan þá mundi ég hvað þetta var gaman. Þessar fyrstu tvær kafanir voru mjög góðar þó svo að skyggnið hafi reyndar verið frekar slappt vegna þess að það hafði rignt svo mikið um nóttina.
Þennan daginn tókst okkur því miður að brenna svakalega. Sérstaklega Einar (sem endaði á að fá blöðrur á axlirnar og er núna að flagna.. namm!) og því var næstu tveimur sólarhringum varið á svölunum á bungalowinu okkar, í göngutúr um svæðið og annað rólegheitarchill (n.b. á eyjunum fæst ekki áfengi (áfengislögin í einhverri endurskoðun), við sáum ekkert sjónvarp og eina netkaffið var með svo hægt net að ég hef bara aldrei vitað annað eins).
Næsta köfun var svo næturköfun og það er eitt það magnaðasta sem ég hef upplifað og án efa eftirminnilegasta köfunin mín hingað til. Dýrin eru allt öðruvísi á næturnar, helmingurinn er sofandi en á sama tíma eru aðrir fiskar vakandi sem að maður tekur ekki eftir á daginn. Svo er nokkuð magnað að þurfa að lýsa á allt með luktinni sinni til að sjá. Það gerir líka það að verkum að maður er miklu einbeittari í að horfa á einn stað í einu, á daginn getur þetta orðið pínu yfirþyrmandi og maður tekur ekki eftir nema broti af því sem er í gangi fyrir framan mann.
Þegar kominn var tími til að snúa til baka syntum við öll að línunni úr bátnum og slökktum ljósin okkar. Það er bara ekki nokkur leið að lýsa því hversu mikið myrkur er á fimm metra dýpi um kvöld þegar öll ljós eru slökkt. Ef myrkur væri með skala frá einum og upp í tíu þá var þetta klárlega tíu. En þá gerðist svolítið merkilegt. Plöntusvifið sem er þarna úti um allt bregst við snertingu með því að lýsa í myrkri. Svo að í hvert skipti sem við hreyfðum hendur eða fætur þá lýsti umhverfið upp... þetta var svo magnað að mig langaði bara aldrei upp úr!
Næstu fjórar kafanir voru allar partur af advanced open water kúrsinum sem við tókum. Þessi kúrs gerir það að verkum að við megum fara dýpra (niður á 30 metra dýpi í staðinn fyrir 18 eins og áður) en á milli 20 og 30 metra undir sjávarmáli er oft mest að sjá. Mest líf og meiri líkur á að rekast t.d. á hákarla eða aðra mjög stóra fiska. Við sáum því miður enga hákarla en það skipti engu máli því í þessum köfunum sáum við svo ótrúlega margt annað fallegt og skemmtilegt. Það er alveg ótrúlegt hvað fiskarnir eru óhræddir við mann og hvað þetta er allt saman fallegt og litríkt. Kórallarnir þarna við Andaman eyjur eru risa stórir og í öllum mögulegum litum þó svo að fjólublár virðist vera uppáhalds litur flestra þarna niðri.
Ég er algjörlega komin með bakteríuna, það er alveg ljóst. Ég væri þess vegna til í bara köfunardót í afmælisgjöf í næsta mánuði... þetta er alveg frábært sport. Við sáum fullt af krökkum á námskeiðum með foreldrum sínum og við kynntumst líka pari sem var í silfurbrúðkaupsferðinni sinni og ákvað að fara í fyrstu köfunarferðina sína af því tilefni. Þetta er svo sannarlega fyrir alla og ef ég get þetta sem var skíthrædd við sjóinn og allt sem í honum bjó þá geta þetta allir. Eini gallinn er sjóriðan sem ég þjáðist af þegar í land var komið. En hún veltur auðvitað á hvernig bát maður er á úti á sjó.
Eftir sjö kafanir og nýja "gráðu" í köfun var komið að síðasta deginum okkar og þá var planið að reyna að kafa með celeb fílnum Rajan. Rajan er 60 ára gamall fíll sem er búinn að búa á Andaman síðan hann var ungi. Fyrst vann hann sem vinnufíll en núna er hann bara almennt celeb sem að klikkaðir túristar borga fyrir að fá að synda með. Þennan dag sem við áttum að fara með honum í sjóinn var mikið brim og aumingja Rajan var ekki alveg að meika öldurnar. Við fengum samt að fara aðeins með honum út í en hann vildi alltaf fara upp úr um leið og hann fór út í hæstu öldurnar og því varð þessi upplifun ekki alveg eins og við vonuðumst eftir í upphafi en við fengum nú samt að fara út í sjó með fíl, klappa honum og gefa honum banana í verðlaun fyrir að vera svona mikil dúlla.
-------
En nú er þessari ferð okkar í Indlandi lokið. Átta frábærar vikur eru að baki - vá það er búið að vera svo gaman. En ég er búin að læra það af minni stuttu reynslu að það tekur nokkrar vikur, jafnvel mánuði að læra almennilega að meta svona ferðalög. Það tekur bara heilann ákveðinn tíma að "melta" þetta allt og smátt og smátt myndar maður einhvernveginn heilstæða mynd af þessu öllu saman. Ég mun því örugglega blogga meira um ferðina þegar heim er komið og ég á örugglega líka eftir að blogga smá um umhverfismálin þarna og eitthvað fleira. Snilldin við svona löng ferðalög til framandi landa er án efa að maður er ennþá að upplifa í margar vikur eftir að maður kemur heim.
Skrifað á Burger King á flugvelli í Zürick klukkan 9:00 þann 15. apríl 2011.
Recent Comments