Sunnudagar eru uppáhaldsdagarnir mínir hér í Stokkhólmi. Ég reyni yfirleitt að sleppa því að læra á sunnudögum og eftir að ég hætti að vinna um helgar þá nýt ég þess út í ystu æsar að hafa nákvæmlega ekkert að gera nema njóta lífsins. Í dag fór ég á frábæra Crossfit æfingu og fór svo í göngutúr með Önnu vinkonu og við kíktum á Fotografiska Museet. Það eru nokkrar sýningar í gangi á Fotografiska, m.a. ein sem heitir Lady Warhol. Sýningin gengur út á myndir af Andy Warhol þar sem hann situr fyrir í kvenmanns gerfi. Pínu spes en frábærlega skemmtilegt og skrítið.
Önnur af sýningunum heitir Fashion. Þar er hægt að sjá alls konar mismunandi tískumyndir, hún var ótrúlega stór og alveg frábær. Allar helstu drottningarnar voru auðvitað mættar á svæðið og spanna myndirnar yfir 60 ára tímabil. Mjög flott.
Á safninu voru fleiri skemmtilegar sýningar eins og t.d. saga tveggja vina sem ákváðu að byggja stofu undir bryggju á Skáni. Það tók þá sex mánuði og útkoman var frábær. Enn önnur sýningin varpaði ljós á tengsl Andy Warhol og Velvet Underground. Mjög skemmtilegt.
Á kaffihúsi safnsins er frábært útsýni yfir Gamla Stan, Djurgården og SA-hluta City. Yndislegt! Við Anna fengum okkur kaffi og einn konfektmola á þessu einstaklega huggulega kaffihúsi.
Já þetta safn er klárlega komið í topp fimm listann minn yfir söfn í Stokkhólmi, ég mun gera heimsóknir á þetta safn að reglulegum viðburði. Mæli með því ef einhver á leið um Hólminn!
ps: Föstu dæmið gengur vel, þrátt fyrir að hafa tekið SVAKALEGAN nammidag í gær (og rauðvín á fös) er ég netto búin að léttast um tvö kg á einni viku. Geri aðrir betur!
Recent Comments