Síðan ég bloggaði síðast (sem er orðið skammarlega langt síðan) hef ég varla haft tíma til að raka á mér lappirnar hvað þá setjast niður og blogga almennilega. Þó svo að ég sitji núna fyrir framan tölvuna í eldhúsinu heima og reyni að blogga þá er alls ekki víst að þetta verði almennilegt blogg... Ég er nefninlega svo sifjuð að það nær engri átt!
En allavega. Síðan síðast er búið að vera ótrúlega gaman hjá mér. Eina sem ég hefði viljað gera öðruvísi er að ná að mæta í aðeins fleiri tíma í skólanum. En svona er þetta víst að vera ferðagarpur í brúðkaupserindum um allan heim.
San Francisco var æði. Borgin heillaði mig. Ég hefði ekkert á móti því að taka langt frí þangað einhvern tíma, sérstaklega fanst mér Castro æðislegt hverfi. Brúðkaupið í Pleasant Hill var ekkert smá skemmtilegt. Athöfnin var falleg, svo falleg að ég er ekki viss um að sólgleraugun hafi náð að fela tárin. Maturinn góður og fólkið skemmtilegt. Stuðinu lauk ekki þegar veislan var búin heldur fórum við upp á hótel hjá the best man og dönsuðum og sungum í nokkra tíma í viðbót. Það var líka æðislegt að hitta Tomma aðeins, hann er framúrskarandi leiðsögumaður um borgina og tók okkur í frábæran göngutúr í laugardagsþynnkunni.
Reykjavík er alltaf jafn frábær. Ég talaði nánast ekkert um kreppu heldur naut þess bara að vera með fjölskyldunni, láta stjana við mig í mat og drykk, chilla með stelpunum mínum, fara í íslenska klippingu og lit, fá litlu sætu frænku mína nefnda í höfuðið á mér (og ömmum sínum reyndar líka), skemmta mér í frábæru brúðkaupi og anda að mér íslenska loftinu.
Ég ætla að gera þessum ferðum betur skil bráðlega með myndum hér á blogginu.
---------------
Annars reyni ég bara að læra eitthvað. Það er ótrúlegt hvað það tekur langan tíma að komast yfir einn kafla í líffræði því hann er á sænsku. Það borgar sig fyrir mig að fara á kaffihús og taka ekki tölvuna með. Hér heima kíki ég allt of mikið á facebook og er líkleg til þess að fara að plokka á mér augabrúnirnar eða eitthvað annað álíka viturlegt þegar sænska einbeitingin er búin. Í sannleika sagt er ég búin að komast að því að ég er ekkert sérstök í sænsku. Í dag t.d. var ég í líffræði í mjög "skemmtilegri" rannsókn úti í skógi að kanna ástand eika í nágrenni við skólann. Málið er bara að í nágrenni við skólann er risa stór skógur sem heitir Store Mossen. Ég brenndi mig á svona 7 brenninetlum áður en ég hafði kjark í að bögla því út úr mér við stelpurnar í hópnum á hverju ég væri eiginlega að brenna á mér kálfana. Var búin að steingleyma hvernig brenninetlur líta út.
Kennarinn hafði líka varað okkur við ýmsum dýrum þarna í skóginum. Ég sver það að hún nefndi elg. Það hefði nú verið stuð ef ég hefði bara rekist á elg í fyrstu skógarferðinni minni í sænskan skóg. En því miður (eða kannski sem betur fer) varð mér ekki að ósk minni. Rannsóknin gekk samt vel og svo er bara spurning hvort ég þori að skila skýrslunni á sænsku eða hvort ég fái að nýta rétt minn sem útlendingur og skila fyrsta verkefninu mínu í líffræði á ensku. Sjáum til.
----------
Í dag erum ég og Einar búin að vera saman í 14 mánuði. Það er komið að mér að skipuleggja mánaðarlega deitið okkar. Síðast vorum við á ströndinni í Kuta á Bali, vá það getur bara ekki verið að það sé bara mánuður síðan!
ps: ég er í alvörunni að spá í að hætt á facebook. Er svo mikill netnjósnari í mér að þetta gerir mér ekki gott! Ég er líka viss um að ég hækki um einn heilann í meðaleinkunn ef ég læt loka þessu apparati. Verst að maður getur ekki beðið þá um að skammta sér tíma þarna inni, t.d. bara eitt login á dag sem má ekki vara lengur en hálftíma. Það væri fáránlega sniðugt!
Recent Comments